Vara verður hrávara: Mikilvægi mannlegra tengsla
Ég er búin að vera mjög upptekin af samspili gervigreindar og mennskunnar undanfarin misseri.
Ég er nefnilega pínu hrædd um að aukin notkun á spunamódelum eins og ChatGPT stuðli að því að líf okkar og skjáir fyllist af miðjumoði sem endar í því sem kallast á ensku “sea of sameness”.
Að þegar allir hafa aðgang að sömu tækni og verkfærum verður erfiðara að skapa raunverulegt samkeppnisforskot
Lítil saga
Um helgina rölti ég út í bakarí til að kaupa morgunmat handa fjölskyldunni. Ég bý við þau forréttindi að það eru í það minnsta þrjú bakarí í göngufjarlægð við heimili mitt sem selja nokkuð sambærilega vöru. Ég valdi nýjustu viðbótina í bakaríisflóru hverfisins þar sem ég er þakklát fyrir að fá fleiri valmöguleika og vildi verðlauna þetta tiltekna fyrirtæki með viðskiptum mínum.
Eftir að ég var búin að borga kom í ljós að ég hefði getað fengið góðan afslátt af því sem ég keypti ef að afgreiðslustúlkan hefði bara látið mig vita af tímabundnu tilboði. Af því að upphæðin var umtalsverð setti þetta óþarfa leiðinda blett á annars ánægjuleg samskipti við starfsmenn fyrirtækisins.
Þegar vörur eru sambærilegar verður varan sjálf í rauninni aukaatriði og eitthvað annað ræður úrslitum um það hvar ég eyði peningunum mínum. Litlu mannlegu samskiptin í þjónustu skipta öllu máli í þessu samhengi og með því að benda mér á tilboðið hefði starfsstúlkan getað sýnt mér að fyrirtækinu sé umhugað um mig sem viðskiptavin.
Sem hefur mögulega áhrif á mína kauphegðun í framtíðinni.
Þessi reynsla mín af bakaríinu tengist á óvæntan hátt tæknilausn sem ég hef verið að prófa. Lausnin byggir á ákveðinni nálgun og reiknireglum sem seljandi hennar hefur þróað. Með aðstoð ChatGPT tók það mig, manneskju með enga forritunarkunnáttu, aðeins hálfan dag að bakhanna virkni kerfisins og átta mig á því hvernig væri hægt að byggja sambærilega lausn fyrir brot af því sem umrætt kerfi kostar. Allt sem þurfti var smá (í rauninni mjög takmörkuð) tölfræðikunnátta og skilningur á hugmyndafræðinni á bak við lausnina.
Lausnin er góð og það að ég geti byggt hana sjálf ekki næg ástæða fyrir mig til að gera það. Með því að kaupa lausnina er ég að tryggja mér framtíðarhugmyndir fyrirtækisins á bak við lausnina, viðhald og ákveðna þjónustu. Allt í einu fer verkefnið úr því að reyna að meta hvort lausnin sé góð yfir í hversu vel ég treysti fyrirtækinu, hugmyndinni og fólkinu á bak við hana.
Þessar tvær sögur virðast ótengdar við fyrstu sýn en draga fram sama lærdóminn: Þegar vörur og tækni eru sambærilegar, verður mannlegi þátturinn oft enn mikilvægari en áður. Hvort sem við erum að tala um hefðbundin fyrirtæki eins og bakarí eða tæknilausnir er það ekki lengur varan sjálf sem skapar varanlegt samkeppnisforskot heldur eru það upplifunin, traustið og gæði samskiptanna sem ráða úrslitum.
Auðvitað er ekkert algilt í þessum efnum en það er samt þess virði að pæla í þessu.
Gervigreindarbólan sprungin?
Undanfarið hef ég mikið verið að velta fyrir mér áhrifum gervigreindarinnar á viðskiptamódel, aðgreiningu og samkeppnisforskot. Með hjálp Ed Zitron og hlaðvarpsins hans, Better Offline, hef ég líka velt fyrir mér hvert þessi gervigreindarþeysireið er eiginlega að fara.
Er AI kannski bara bóla?
Innkoma hins kínverska Deepseek inn á spunagreindar eða „LLM“ sviðið í síðustu viku kollvarpaði eiginlega gervigreindarmarkaðnum. Allt í einu þurfa OpenAI, Anthropic og Google líklega að endurhugsa viðskiptamódelin sín, sem bara í vikunni þar á undan allir voru að hæpa.
Deepseek virðist sýna að hægt sé að þróa spunamódel sem nota minna af orku og eru ódýrari í rekstri en þessi stóru fyrirtæki hafa áður haldið fram. Skjálfti fór um verðbréfamarkaði og hlutabréf Nvida tóku dýfu. Deepseek er líka open source sem þýðir að hver sem er getur skoðað, breytt og bætt módel fyrirtækisins frítt.
Ég er engin sérfræðingur í gervigreind og veit að það sem kemur hér á eftir er mikil einföldun.
En ef við ímyndum okkur aðeins að OpenAI sé gamla góða alfræðiorðabókin sem var seld af farandsölumönnum í bókarformi og síðar á geisladiskum er hægt að færa fyrir því rök að Deepseek sé eins og Wikipedia. Allt í einu er virðið sem fólst í því að kaupa bókina eða geisladiskana mun minna því Wikipedia svarar sömu þörf notendanna frítt. Það þýðir ekki að enginn muni lengur kaupa „sérhæfð alfræðirit“ OpenAI og hinna fyrirtækjanna en Deepseek hefur breytt landslaginu til frambúðar.
Hrávöruvæðing gervigreindar?
Í upplifunafræðumnum er talað um svokallað „commoditization“ (vöruvæðingu?) en í bókinni „Experience Economy“, sem fyrst kom út 1998 og hefur verið uppfærð nokkrum sinnum síðan, nota höfundarnir, Joseph Pine og James Gilmore, kaffi til að útskýra fyrirbærið.
Þróun efnahagslegs virði skv. Gilmore og Pine (e. the progression of economic value)
Þegar að vöruvæðing á sér stað þurfa fyrirtæki að færa sig upp virðiskeðjuna til að aðgreina sig og skapa efnahagslegt virði. Kaffibaunir eru ódýr hrávara en með því að nota þær til að hella upp á kaffibolla, eykst virðið. Að selja kaffibollann á veitingastað eða á kaffihúsi eykur svo virðið enn fremur og fyrirtæki eins og Starbucks breyta hrávörunni í upplifun. Kaffihús Starbucks eru ekki bara staður til að kaupa kaffi heldur svokallaður þriðji staður eða „third place“.
Segja má að Deepseek sé að ýta OpenAi og öðrum forkólfum spurnagreindar neðar í virðiskeðjuna og ýta spunamódelunum sjálfum (LLM) í átt því að vera hrávara eða „commodity“. Við gætum jafnvel kallað þetta hrávöruvæðingu gervigreindar.
OK, ég veit að þetta er pínu akademískt hjá mér en ekki gefast upp.
Það er tilgangur með þessari yfirferð!
Tæknin og einmanaleikafaraldurinn
Mikið hefur verið rætt um einamanleikafaraldinn eða „the loneliness epidemic“.
Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um hvort einmanaleiki hafi aukist eða hvort um sé að ræða nýtt sjónarhorn á gamalt vandamál. Ef ég horfi í kringum mig sé ég samt með eigin augum æ fleiri þjást af kulnun og aftengingu. Hvort sem fólk er með klíníska greiningu eða ekki.
Við erum einfaldlega of upptekin. Alltaf á hraðferð og orðin of fær í að fórna því sem nærir okkur fyrir efnisleg gæði og skrýtnar kröfur um sífelldan dugnað.
COVID-19 faraldurinn var svo ákveðinn hröðunarpunktur fyrir stafræna umbreytingu. Árið 2025 þurfum við varla að rifja upp allt sem gerðist á þeim árum en tæknilausnir sem áttu að tengja fólk betur saman virðast í mörgum tilfellum hafa stuðlað að yfirborðskenndari samskiptum og grynnri tengslum.
Sem samfélag virðumst við enn vera að vinna úr þessari þróun. Aukinn áhugi á þriðju rýmum og fréttir af ungu fólki, sérstaklega ungum mönnum, sem í auknum mæli sækja trúarlegar athafnir og samfélög fyrir tilstuðlan samfélagsmiðla gætu verið ein vísbending um slíkt.
Spurnagreind getur auðveldað líf okkar, aukið skilvirkni og hjálpað okkur að leysa fjölmörg vandamál á skjótari hátt. Þrátt fyrir að spunalíkön geti framleitt sannfærandi texta og hjálpað okkur að forrita skortir þau mannlega eiginleika sem skipta öllu máli í samfélögum manna. Fólk vill nefnilega ekki bara samskipti, það vill merkingarbær samskipti.
Atriði eins samkennd, líkamstjáningu, húmor, væntumþykju og hlýju í samskiptum.
Gervigreindin og aðgreining
En Auður, hvernig tengist þetta aðgreiningu?
Fengið að láni af Instagram síðu Póstsins.
Mæli annars með að fólk taki ekki myndbönd af öðru fólki þar sem það fær birtu í augun - ég er ekki svona grimm 😄
Alveg eins og í fyrirlestri sem ég hélt í Hörpu síðasta ári þar sem ég lét í það skína að mannlegi vinkillinn væri lykillinn að forskoti í markaðsmálum held ég að fyrirtæki verði að skilja þessa hrávöruvæðingu tækninnar.
Tæknilausnir einar og sér geta ekki viðhaldið forskoti
Forskot framtíðarinna mun líklega að einhverju leyti snúast um að vita hvaða tækni er líklegust til að verða hrávöruvædd næst. Þá skiptir máli að skilja hvaða mannlegu snertifletir skipta mestu máli og hvenær er betra að kaupa lausn en byggja hana sjálfur.
Þrátt fyrir tækniframfarir sem eiga sér vart hliðstæðu í sögu mannkyns, er frumþörfin fyrir tengingu enn til staðar. Fyrirtæki sem skilja það gætu notað gervigreind til að skapa sín eigin „þriðju rými. Ég sé til dæmis fjölmörg tækifæri í verslun, ferðaþjónustu og fleiri geirum.
Tækniframfarir munu halda áfram að umbreyta viðskiptum og samfélaginu.
En hvort sem við erum að selja brauð eða að byggja nýja tæknilausn munu þau fyrirtæki blómstra sem nota tækni til að styrkja, frekar en að koma í staðinn fyrir, þessi mikilvægu samskipti.