Svona verðurðu hugsanaleiðtoginn í þínum geira
Hefur þig einhvern tíma langað að deila frábærri hugmynd en hugsað: "Ég get ekki gefið frá mér öll leyndarmálin mín frítt - hvað á fólk þá að borga mér fyrir?"
Ég veit að ég hef hugsað þetta. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
Það er mjög mannlegt að vilja vernda hugmyndirnar sínar. Okkur hættir til að hugsa um hugmyndir sem takmarkaða auðlind og að við missum forskotið okkar ef við deilum þeim. Að aðrir þarna úti grípi þær og hlaupi með þær. Og það sem verra er, að þessir "aðrir" framkvæmi þær betur en við getum.
Ég skil en ég er ekki sammála.
Að deila þekkingu er frábær leið til þess að byggja upp traust og laða að fleiri viðskiptavini
Og við ættum að gera miklu meira af því.
Skorthugsun
Skortur á auðlindum var raunverulegt vandamál fyrir forfeður okkar og formæður. Þau sem voru meðvituð um þennan skort, og tóku ákvarðanir út frá honum, lifðu af. Dr. Stephanie Preston, sálfræðiprófessor við Michigan háskóla sem sérhæfir sig í skorthugsun, heldur því fram að heilinn á okkar hafi af þessum sökum þróast til þess að veita skorti sérstaka athygli.
Árið 2024 er aðstæður all aðrar. Nú lifum tíma sem einkennist af ofgnótt í öllum skilningi orðsins en heilinn á okkur er bara ekki búinn að fatta það. Við hugsum oft ennþá eins og við búum við skort.
Það sem ég er að reyna að segja er að við erum forrituð til að halda að okkur góðum hugmyndum. Okkur líður eins og það sé takmarkað magn af þekkingu í umferð og að við þurfum að hamstra hana.
Við ofmetum líka gjarnan virði hugmynda og upplýsinga. Eins og hugmyndirnar einar búi til virði og að við séum einskis virði sem einstaklingar án þeirra.
Smá reality check: Að fá góða hugmynd er eitt. Að framkvæma hana er allt annar handleggur!
Ofgnótt upplýsinga og efnis
Ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því en það er MJÖG mikið af hugmyndum þarna úti. Og enn meira af efni um alls konar hugmyndir, góðar og slæmar.
"Ef upplýsingar væru svarið, værum við öll milljarðamæringar með fullkomna magavöðva", sagði Derek Sivers og benti réttilega á að flestir gera mest lítið með efnið og upplýsingarnar sem þeir neyta. Ég er með svona ca milljón hollar kotasæluuppskriftir, sem hafa tröllriðið öllu undanfarið, vistaðar á Instagramminu mínu en ég hef ennþá ekki notað eina einustu þeirra. Og ég er svo sannarlega ekki með sýnilega magavöðva!
Margir hafa líka talað um 1% reglu internetsins um að 99% internetnotenda séu svokallaðir "lurkers" sem neyti bara en skapi ekkert og að það séu í raun bara 1% á internetinu sem skapi efnið. Nielsen Norman group eru aðeins örlátari og tala um 90-9-1 lögmálið þar sem 90% séu lurkers, 9% skapi eitthvað smá en internetið sé byggt upp af framlagi fyrrnefnds 1%.
Ein af þeim bókum sem ég vitna hvað oftast í er bókin "Paradox of Choice" eftir Barry Schwartz. Í mjög stuttu máli finnst okkur ekki gott að hafa of marga valmöguleika. Við viljum hafa val en of mikið val gerir okkur erfitt fyrir að taka ákvörðun og leiðir til streitu og valkvíða.
Við neytum svo mikið af efni með góðum hugmyndum að við vitum ekki hvað við eigum að gera við þær allar. Ég kalla þetta ofneyslulömun og hún er meðal annars ástæðan fyrir því að ég hef ekki áhyggjur af því að ég sé að "gefa allar góðu hugmyndirnar mínar" á internetinu.
Vísindamenn hafa rannsakað þetta gap á milli "að vita" og "að gera". Sannleikurinn er sá að það eru fleiri sem vita en gera!
Kostir þess að deila bestu hugmyndum þínum.
Ég hef alltaf aðhyllst því að deila hugmyndum. Því örlátari sem ég er á þekkingu mína, því fleiri tækifæri fæ ég. Og því fleiri viðskiptavini.
Af hverju? Það eru helst fjórar ástæður fyrir því:
Sérfræðiþekking
Með því að deila bestu hugmyndunum þínum og efninu sem þú ert búin að stúdera mest staðsetur þú þig sem sérfræðing í huga þeirra sem neyta efnisins. Ef þú passar að deila aldrei djúsí stöffinu týnist þú í hafsjó upplýsinga og "hugsanaleiðtoga". Með óáhugaverðu efni sem fylgjendur geta fundið hjá hverjum sem er.
Traust
Að vera opin og örlát með þekkinguna þína byggir upp traust. Viðskiptavinir fá á tilfinninguna að þú viljir þeim vel og að þú viljir að þeir nái árangri. Þegar að kemur að því að velja samstarfsaðila í verkefni velur þú aðilann sem þú treystir best.
Draumaviðskiptavinir
Þeir sem tengja við efnið þitt eru líklegir til þess að kaupa þjónustuna þína. Og þeir eru líklegri til að vera viðskiptavinurinn sem þú ert að leita að, með réttar væntingar og gildi sem samræmast þínum eigin.
Sýnikennsla á virði
Ein grundvallarregla í frásagnarlist (storytelling) er hugmyndin um að þú eigi að sýna en ekki segja (show, don't tell). Með því að deila áhugaverðum hugmyndum og sögum sannarðu virði þitt án þess að þurfa að segja "Ég er sko frábær, í alvöru".
Ástæðan fyrir því að þú verður alltaf einu skrefi á undan
Þegar ég var með fyrirtækið mitt, I Heart Reykjavík, var ég oft spurð hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að aðrir myndu herma eftir því sem ég var að gera.
Það gerðist nánast daglega, hvort sem ég hafði áhyggjur af því eða ekki. Fyrirtæki stór og smá stálu frá mér efni, kóperuðu ferðalýsingar og einhver snillingurinn opnaði meira að segja Instagram reikning sem hét "We Heart Reykjavík". Ég var ekki lengi að kaupa lénin weheartreykjavik.is/com/net/ o.s.frv. og vísa þeim öllum á mína síðu.
Ástæðan fyrir því að ég hafði ekki áhyggjur af þessu er að þessir aðilar höfðu ekki aðgang að mínum heila, minni reynslu, mínu samhengi. Þeir gátu bara séð það sem ég hafði gert nú þegar en ekki það sem kom næst.
Þótt þú lesir eitthvað er ekki þar með sagt að þú vitir hvað þú átt að gera við það. Eða hvernig þú átt að nýta þér upplýsingarnar með árangursríkum hætti.
Fyrir utan að það sem virkar fyrir einn virkar ekki endilega fyrir þann næsta.
Hverju ættirðu alls ekki að deila
Þótt ég sé fylgjandi því að vera opin og örlát þá eru takmörk á hverju við eigum og megum deila.
Það er mikilvægt að virða trúnað við viðskiptavini og brjóta ekki það traust sem ríkir á milli ykkar. Ekki deila sögum sem hægt er að tengja við viðskiptavini nema með leyfi viðkomandi. Í einhverjum tilvikum erum við kannski líka búin að þróa ákveðna aðferðarfræði sem er hluti af samkeppnisforskotinu okkar. Þú getur deilt hugmyndunum sem aðferðafræðin byggir á en þú vilt síður deila öllum smáatriðunum. Ég mæli líka gegn því að tala um framtíðarplön og hugmyndir þótt það séu auðvitað alltaf einhverjar undantekningar sem sanna regluna. Það er eitt að deila roadmappi í vöruþróun en annað að deila því fyrirfram hvernig þú ætlar að sigra samkeppnina skref fyrir skref.
Það þarf auðvitað alltaf að vera einhvers konar jafnvægi á milli þess að vera örlát á hugmyndir og að vernda þína hagsmuni.
Ég held bara að við ruglumst oft á þessu tvennu og höldum að fleiri hugmyndir eigi heima í hagsmunahrúgunni en eiga raunverulega heima þar.
Að deila af örlæti byggir upp vörumerkið þitt og laðar að viðskiptavini.
Ef það er eitthvað sem ég vil að þú munir þá er það þetta:
Hugmyndir eru alls staðar, framkvæmdagleði er af skornum skammti
Gott efni rýrir ekki virði þeirrar þjónustu sem þú rukkar fyrir heldur eykur það.
Það er munur á yfirborðskenndum skilningi og djúpri sérfræðiþekkingu
Að deila því hvernig þú færir viðskiptavinum virði eykur eftirspurn eftir þeirri sérhæfðu þjónustu sem þú hefur upp á að bjóða.
Hugsaðu um síðasta skipti sem einhver deildi dýrmætri þekkingu með þér. Hvernig leið þér?
Þú hefur tækifæri að gera það sama fyrir aðra!
Og njóta uppskerunnar.