Að byggja flugvél á flugi: Ný heimasíða

Velkomin á nýja heimasíðu markaðsklappstýrunnar.

Þetta er nýja heimilið mitt á internetinu sem ég innréttaði alveg sjálf. Hér ætla ég að deila efni, segja frá þjónustunni minni og bara, svona, gera það sem að almennt tíðkast á persónulegum heimasíðum.

"Bíddu, ertu ekki með LinkedIn? Er það ekki nóg?"

Nei, það er nefnilega ekki nóg.

Það er aldrei gott að vera með öll eggin í sömu körfunni, sérstaklega ekki þegar að karfan er samfélagsmiðill sem getur breytt öllum forsendum og algríminu án þess að þú hafir nokkuð um það að segja.

Og án þess svo mikið sem að tilkynna þér það.

Heimasíðan þín er miðjan þín. Heimilið þitt. Þú átt hana og ekki nema að internetið hrynji eða þú gleymir óvart að borga fyrir hana (#beentheredonethat - saga fyrir annan dag) er allt sem þú gerir í heimasíðunni að fara að gagnast þér til framtíðar.

Þar fyrir utan hjálpar heimasíðan þér að finnast á leitarvélum. Það er ennþá til fólk sem gúgglar allt!

"Bíddu, er leitarvélabestun ekki dauð? Er ekki AI málið núna?"

Sko, það eru skiptar skoðanir um þetta.

Nei, leitarvélabestun er ekki dauð en það er kannski ekki hægt að treysta eingöngu á hana eins og einu sinni. Sérstaklega ekki ef þú ert í geira þar sem ríkir mikil samkeppni og mikill þroski í notkun leitarvélabestunar.

Eins og í ferðaþjónustunni, til dæmis.

En ég trúi því að leitarvélabestun eigi eitthvað inni og það sé hægt að ná árangri með henni.

Í versta falli er þetta þá bara tilraun sem misheppnast. Ég á allavega stað núna, þessa heimasíðu, sem er hannaður með þarfir minna viðskiptavina og mínar eigin þarfir í huga.

"Bíddu, ég hélt að þú værir að reyna að selja þig sem einhvern sérfræðing, ég sé hvergi þjónustuframboðið þitt. Og það vantar alls konar annað."

Ég hef reyndar aldrei gefið mig út fyrir að vera vefhönnuður og er engin sérfræðingur endilega um vefi sem slíka. Ég er meira í að pæla í hönnun út frá viðskiptavinum og efninu sem verið er að miðla.

Upplifunarhönnun, heitir það kannski.

Eða User Experience. En ég er ekki einu sinni sérfræðingur í því.

Ég er bara týpa sem gerir hlutina. Ef mig vantar heimasíðu og ég er ekki komin með nægar tekjur til að réttlæta að borga einhverjum fyrir að búa hana til fyrir mig, þá geri ég það sjálf.

Hlutirnir þurfa ekki að vera fullkomnir. Þeir þurfa bara að vera nógu góðir.

Sem frumkvöðull, því allir sem taka áhættu og eyða peningum í að byggja upp nýjan rekstur eru samkvæmt skilgreiningu frumkvöðlar, trúi ég á þrennt:

1) Minimum viable product eða lágmarks lífvænleg vara

Þessi hugmyndafræði snýst um að gefa út einföldustu útgáfu af vöru sem leysir vandamál viðskiptavina og gefur fyrirtækjum mikilvæga endurgjöf til að þróa vöruna áfram. Ég nálgast þjónustuna sem ég býð upp, þessa heimasíðu og eiginlega bara allt sem ég geri faglega út frá þessari hugmyndafræði.

Ég vil byggja grunn sem ég byggi síðan ofan á, með endurgjöf í huga, í stað þess að byggja hús sem ég þarf svo að rífa niður af því að enginn getur búið í því.

2) Building in public - að byggja opinberlega

Það má segja að byggja eitthvað opinberlega sé náskylt lágmarks lífvænlegu vörunni. Í frumkvöðlaheiminum er stundum talað um að frumkvöðlar séu að byggja flugvélina á meðan þeir fljúga henni.

Þeir sem fylgja Building in public hugmyndafræðinni gera það líka en leyfa væntanlegum viðskiptavinum, fjárfestum og bara öllum sem gætu mögulega haft áhuga á því að fylgjast með hvernig vélin er byggð, af hverju og til hvers alveg frá upphafi.

Það er mjög góð markaðsleg rök fyrir því að byggja opinberlega. Fólk tengist okkur og vill að okkur gangi vel sem yfirfærist á vörumerkið. Oft verður til samfélag í kringum vöruna sem gefur okkur endurgjöf í rauntíma.

Á meðan við getum ennþá breytt hlutunum.

Húsið og grunnurinn!

3) Bootstrapping eða sjálfsfjármögnun

Að bootstrappa er að byggja upp fyrirtæki án utanaðkomandi fjármagns. Í stað þess að taka lán eða þiggja fjárfestingar frá fjárfestum nota frumkvöðlar eigin fjármagn og tekjur frá viðskiptavinum til að vaxa. Þetta þýðir oft að fyrirtækið vex hægar en vöxturinn verður kannski líka viðráðanlegri. Sjálfbærari.

Þetta hentar auðvitað ekki í allan nýjan rekstur en lífstílsfyrirtæki, eins og lítið ráðgjafafyrirtæki eins og ég er að byggja, er aldrei að fara að fá utanaðkomandi fjármagn. Né heldur hef ég áhuga á því.

Að bootstrappa neyðir mann til þess að horfa í hverja krónu sem maður eyðir og oft kallar það á DIY aðferðir eða að hugsa út fyrir boxið.

"En hvað er þá næst?"

Alveg eins og með þjónustuframboðið sem ég er alltaf að ítra og slípa til, mun ég halda áfram að vinna í þessari síðu. Ég er með langan lista af því sem mig langar að gera og svo verð bara að forgangsraða. Ég vinn svona hluti gjarnan í sprettum, eyði kannski viku í að laga eina síðu, tek mér smá pásu, og held svo áfram og svo koll af kolli.

"OK, ég skil. Til hamingju þá!"

Takk! Og sjáumst!

Previous
Previous

Svona verðurðu hugsanaleiðtoginn í þínum geira

Next
Next

Það er ákvörðun að taka ekki ákvörðun