Það er ákvörðun að taka ekki ákvörðun

Hefurðu upplifað að standa frammi fyrir ákvörðun sem virkar svo stór að hún verður algjörlega óyfirstíganleg?

Mögulegar afleiðingar og óvissan eru eins og myllusteinn um hálsinn á þér og festa þig í drullupolli sem þú kemst ekki upp úr. Þú veist þú þarft að taka ákvörðun en þú bara getur það alls ekki. Svo þú hummar hana fram af þér. Endalaust.

Að fresta því að taka ákvörðun hefur ekki bara áhrif á þig og þinn persónulega vöxt heldur líka teymið þitt, sem þarf leiðsögn og stuðning, og jafnvel fyrirtækið. Eða fjölskylduna.

Tækifæri renna þér úr greipum. Vandamálið, sem stendur óleyst, safnar vöxtum og vaxtavöxtum. Pressan magnast.

Það kaldhæðnislega við þetta ástand er að með því að taka ekki af skarið ertu í raun að taka ákvörðun. Það er ákvörðun að taka ekki ákvörðun!

Og þessi hegðun leiðir oft til útkomunnar sem við erum einmitt að reyna að forðast.

Hér eru nokkrar leiðir sem hafa hjálpað mér að komast yfir útkomukvíðann sem fylgir stundum ákvörðunartöku:

👉 Settu þér tímamörk: Gefðu þér ákveðin tímaramma til taka ákvörðunina og stattu við hann.

👉 Hugsaðu um það versta sem getur gerst. Og spurðu þig svo "Og hvað?". Hvað breytist raunverulega ef það versta sem getur gerst gerist og er það svo slæmt?

👉 Taktu fórnarkostnaðinn með í reikningsdæmið. Hverju ertu að fórna með því að taka ekki ákvörðun og hverju fórnarðu með hverjum valkosti fyrir sig.

👉 Dustaðu rykið af öllum módelunum sem þú lærðir í háskólanáminu. SVÓT greiningar og Eisenhower matrixan eru kennd ár eftir ár af ástæðu. Teiknaðu upp "if-then" ákvörðunartré eða létta sviðsmyndagreiningu.

👉 Treystu innsæinu. Við vitum yfirleitt hvað við þurfum að gera, innst inni. Við viljum bara ekki díla við afleiðingarnar.

👉 Áður en þú hefur einhverja vegferð, hugsaðu um hvað þarf að gerast svo að þú hættir við eða breytir um stefnu. Það er mun auðveldara að ákveða stóra hluti fyrirfram en að ætla að taka ákvörðun í mómentinu þegar allt virkar miklu stærra og svakalegra.

Það sem hefur samt reynst mér allra best er að breyta því hvernig ég hugsa um ákvarðanir. Í stað þess að hugsa um að það sé ein rétt ákvörðun eða að hver ákvörðun sé upp á líf eða dauða er þetta mantran mín núna:

Það er engin ákvörðun rétt. Það eru bara ákvarðanir og afleiðingar.

Það sem skiptir máli er að halda áfram. Við tökum ákvarðanir með bestu mögulegu upplýsingum á þeim tímapunkti sem við tökum þær og af heilindum. Svo lærum við af afleiðingunum.

Þessi nálgun breytti lífi mínu.

Hvaða aðferðir notar þú til að komast upp úr ákvörðunarfælnispyttinum?


Þessi færsla birtist fyrst á LinkedIn. Fylgdu mér þar til að fá efnið mitt beint af kúnni

Previous
Previous

Að byggja flugvél á flugi: Ný heimasíða

Next
Next

Hvað þarftu að hafa til að vera góð content manneskja?