Finndu fyrir hræðslunni en gerðu það samt!
Ég hef alltaf verið mjög lofthrædd.
Mig svimar við að príla upp smá stiga og ég hef aldrei verið aðdáandi tívolítækja sem fleygja manni á hvolf eða út og suður.
Ég vil bara vera á jörðinni.
Á meðan ég var með fyrirtækið mitt var mér ítrekað boðið í zipline í Vík, og reyndar sviflug líka, sem ég afþakkaði jafnharðan. Ég hefði ekki farið þótt mér hefði verið boðið fúlgur fjár.
Í fyrrasumar var ég með mission að ýta mér lengra og lengra út fyrir þægindarammann. One-way miði til Spánar. Fékk mér tattú eftir að hafa hugsað um það í 20 ár eða svo. Fargufa (sem ég kalla reyndar alltaf óvart fjargufu). Indverskt matarboð í Garðabæ með ókunnugum sem ég fann á Instagram. Smá dans í almenningsgörðum. Jógamöntrur og söngur í náttúrunni. Sjósund á brókinni í Nauthólsvík í rigningu.
Bara klassíst "kona í miðlífskrísu - eat, pray love" dæmi.
Svo einn daginn var ég á Akureyri í góðu veðri og virðist hafa lent í einhvers konar "out of body experience" því allt í einu var var ég búin að bóka mig í zipline ferð. Ein. Með engum fyrirvara.
Ég var ekki einu sinni með útiföt með mér og mætti í gallabuxum og strigaskóm þrátt fyrir leiðbeiningar um gönguskó og vatns- og vindhelt. Sem sagt í "túristar sem kunna ekki á Ísland" gallanum.
Ég get eiginlega ekki lýst tilfinningunni þegar að ég gekk að fyrstu línunni. Ég var sveitt í lófunum og þurfi stanslaust að tala sjálfa mig ofan af því að snúa við og hlaupa í burtu. Þegar að leiðsögukonan var búin að krækja beltinu á línuna og það var komið að því að ég hoppaði fram af brúninni var mér óglatt. Hjarslátturinn á fullu. Fiðildi í maganum. Kökkur í hálsinum og tárin tilbúin að brjótast fram ef það þyrfti.
"Bless, líf. Þetta er búið að vera gaman" ómaði í hausnum á mér.
Og svo hoppaði ég.
Víííííííííííííííííí!
Það er eitthvað magnað sem gerist þegar að maður leyfir sér að finna fyrir hræðslunni en gera hlutina bara samt. Ég var hrædd við að stofna fyrirtæki. Ég gerði það bara samt og það var ævintýri lífs míns, hingað til. Hrædd við að vita ekki hvaðan tekjurnar kæmu þegar að ég byrjaði aftur að vinna sjálfstætt. Gerði það samt og nú nokkrum mánuðum seinna er allt farið að rúlla.
Hrædd við zipline og ELSKAÐI það.
Í sumar er ég með nýtt mission.
Ég ætla að skapa meira. Vera óhræddari við að búa til nýja hluti og deila þeim með umheiminum. Ég hef enga listræna hæfileika þannig að ég ákvað að vera skapandi á minn eigin hátt. Með efni. Nánar tiltekið á Instagram.
Þrátt fyrir að vera með 20+ þúsund fylgjendur á Instagram nú þegar, ákvað ég að stofna nýjan reikning þar sem ég tala íslensku og tek það sem ég hef verið að gera hérna á LinkedIn enn lengra.
Meiri kvenleg óhlýðni.
Meiri töffaraskapur, eins ég skilgreini hann.
Meira video af því að mér finnst það hræðilega ógnvænlegt.
En ég geri það samt.
Vertu memm ef þú vilt.
Þessi færsla birtist fyrst á LinkedIn. Fylgdu mér þar til að fá efnið mitt beint af kúnni